20 Október 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. október.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 12. október. Kl. 9.34 var ekið á reiðhjólamann við Olís í Norðlingaholti. Hann hafði hjólað meðfram Suðurlandsvegi í austur og áleiðis inn að bensínstöðinni  þegar bifreiðinni var ekið að henni eftir afrein af Suðurlandsveginum. Ökumaðurinn blindaðist af lágt liggjandi morgunsólinni og ók utan í hjólið. Einnig hafði illa verið skafið af rúðunum. Reiðhjólamaðurinn meiddist minniháttar. Hann fór til athugunar á slysadeild. Kl. 13.45 varð hörð aftanákeyrsla á Höfðabakka við gatnamót Bæjarháls. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin aftan á þá þriðju. Ökumaðurinn hafði ætlað að hemla þegar hann nálgaðist gatnamótin en fyrir slysni stigið á bensíngjöfina í stað hemla með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti aftan á kyrrstæðri bifreiðinni framundan. Ökumaður hennar kenndi til eymsla og ætlaði að  leita aðhlynningar á slysadeild. Við athugun á hjólbörðum bifreiðar tjónvalds kom í ljós að þeir voru nær rennisléttir og því varhugaverðir. Og kl. 18.21 lentu tveir reiðhjólamenn saman á Bæjarbraut. Annar kenndi til eymsla á eftir og ætlaði að leita til slysadeildar í framhaldinu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 14. október. Kl. 9.36 valt bíll á Gullinbrú á leið til norðurs eftir að hafa lent þar á ljósastaur og strætisvagnaskýli. Tækjabifreið frá SHS kom á staðinn og þurfti að klippa ökumann bifreiðarinnar út úr flaki bifreiðarinnar. Hann var fluttur mikið slasaður með sjúkrabifreið á bráðamóttöku LSH í Fossvogi til aðhlynningar. Hálkublettir voru á götunni. Kl. 17.08 var bifreið ekið á ljósastaur á Reykjanesbraut til móts við Ásvelli. Fjórir voru í bifreiðinni og voru tveir af þeim fluttir með sjúkrabifreið á sjúkrahús með minniháttar áverka. Ökumaðurinn fann til í síðu og farþegi í framsæti var ringlaður og fann til í úlnlið.

Miðvikudaginn 15. október um kl. 16 var ung stúlka að hjóla á gangstéttinni á bak við Asparfell 12 þegar skóreim festist í keðjunni með þeim afleiðingum að hún féll við og meiddist á mjöðm, læri og á höfði. Stúlkan var ekki með hjálm. Sjúkralið kom á vettvang og eftir stutta skoðun var ekki talin ástæða að flytja hana á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 17. október. Kl. 0.53 var bifreið ekið vestur Hringbraut í Reykjavík þegar ökumaður þurfti að snögghemla. Við það lenti bifreiðin utan í götuljósavita og stöðvaðist á grindverki. Ökumaður og farþegi kvörtuðu yfir eymslum í baki eftir að líknarbelgir sprungu út. Þeir ætluðu að leita læknisaðstoðar ef þurfa þyrfti. Kl. 15.16 lenti hjólreiðarmaður fyrir bifreið á gatnamótum Bæjarháls og Bitruháls. Bifreiðinni var ekið suður Bitruháls með hægri beygju eftir aðrein, áleiðis vestur Bæjarháls, en reiðhjólinu var hjólað austur eftir gangstétt norðan við Bæjarháls, áleiðis yfir gatnamót Bitruháls. Hjólreiðamaðurinn hlaut meiðsl á vinstri öxl og átti erfitt með öndun. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Laugardaginn 18. október varð fjórhjólaslys utan vegar við Þingvallaveg nálægt Skálafellsafleggjara. Ökumaðurinn rotaðist og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Nauðsynlegt er að ökumenn hreinsi vel hrím af rúðum bifreiða sinna – áður en lagt er af stað. Þá þarf dekkjabúnaður að taka mið af aðstæðum. Brýnt er að ökumenn hagi akstri í samræmi við gildandi lög og reglur hvað varðar leyfðan hámarkshraða á hverjum stað og virði hraðatakmarkanir. Aldrei er of varlega ekið. Ökumenn þurfa jafnan að vera vel fyrir kallaðir og aki ekki þreyttir og/eða undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Mikilvægt er að hjólreiðafólk fari varlega og sýni góða aðgæslu á ferðum sínum, ekki síst nú í skammdeginu. Börn eiga að nota hjálm þegar þau eru að hjóla. Slysum hefur fækkað jafnt og þétt á ökumönnum og farþegum bifreiða, en fjölgað að sama skapi á reiðhjólafólki.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.