2 Október 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu.

Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. september.

Mánudaginn 22. september kl. 15.59 var bifreið ekið austur Kópavogsbraut og ætlaði ökumaður hennar að aka framúr hægfara bifreið, sem þá beygði til vinstri, áleiðis í veg fyrir hann. Við það fipaðist ökumaðurinn og beygði frá, en bifreiðin lent á tré á móts við hús nr. 70. Farþegi kvartaði undan miklum áverkum í baki. Sjúkraflutningsmenn fluttu hann á spítala.

Þriðjudaginn 23. september kl. 18.18 var bifreið bakkað úr stæði við Austurstönd 14 og á gangandi vegfaranda, sem féll í jörðina. Um minniháttar samstuð var að ræða, vegfarandinn fékk skrámur á handlegg og fór á heilsugæslustöð til skoðunar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 24. september. Kl. 16.11 slösuðust tveir menn á sitt hvoru reiðhjólinu er þeir fóru um reiðhjólastíg  yfir gatnamót á innakstri að leikskóla við Suðurlandsbraut. Reiðhjólamennirnir voru á fullri ferð þegar þeir sáu skyndilega vörubifreið þvert á stígnum, sem ekið var frá  leikskólanum og yfir stíginn. Ökumaðurinn hafði hægt á sér, sá engan og fór því af stað en vissi þá ekki fyrr en hann heyrði dynk.  Báðir reiðhjólamenn slösuðust við óhappið, annar  þó talsvert meira. Báðir voru fluttir á sjúkrahús með sjúkrabifreið. Kl. 16:22 féll átta ára drengur af reiðhjóli á vegrið við Nýbýlaveg eftir að hafa hjólað niður göngustíg frá Hjallabrekku, milli húsa nr. 62 og 64. Hann missti stjórn á hjólinu þegar hann fór niður grasbrekku (ca. 45% halla) við hliðina á tröppum  á göngustígnum meðfram stofnbrautinni. Drengurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Fimmtudaginn 25. september kl. 15.43 var strætisvagni ekið aftan á fólksbifreið á Vesturlandsvegi við Víkurveg og kastaði henni aftan á aðra fólksbifreið, sem var þar fyrir framan.  Einn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar.

Laugardaginn 27. september var tilkynnt um að vegfarandi hafi hjólað á vír, sem strengdur hafði verið þvert á göngu- og hjólabrú frá Naustarvogi yfir á Geirsnef og þaðan yfir á Sævarhöfða. Hjólreiðamaðurinn hafði fallið við höggið og meiðst við það. Vírinn sem strengdur hafði verið yfir brúna hafði slitnað við höggið er hjólað var á hann og lá vírinn á miðri brúnni. Vír vantaði í handrið á miðri brúnni og var vírinn af sömu gerð og vírinn sem notaður er í handrið brúarinnar. Kl. 21.32 sama dag varð árekstur tveggja bifreiða í Ártúnsbrekku. Annarri bifreiðinni hafði verið ekið á miðri akrein af þremur þegar hún snerist í hálfhring með þeim afleiðingum að bifreið, sem ekið var í sömu átt lenti framan á henni.  Akbrautin var blaut og voru hægri og vinstri hjólbarðar að aftan á bifreiðinni, sem snerist, slitnir. Ökumaður var fluttur með sjúkraliði á slysadeild til frekari aðhlynningar.
Ökumenn þurfa að gæta sérstakrar varúðar við framúrakstur og þegar ekið er aftur á bak eða yfir hjólastíga. Gangandi og hjólreiðafólk þurfa og jafnan að fara varlega og sína góða aðgæslu á ferðum sínum. Mikilvægt er að ökumenn skoði hjólbarða bifreiða sinna og gæti þess að gott grip sé í mynstrinu. Og enn og aftur skal það svo ítrekað að ökumenn hafi  jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.