25 Nóvember 2014 12:00

Mánudaginn 17. nóvember kl. 8.25 lenti hjólreiðarmaður, sem hjólað hafði reiðhjólastíg við Hverfisgötu til austurs, á bifreið, sem hafði verið ekið norður Barónsstíg og stöðvuð við gatnamótin. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 18. nóvember. Kl. 10.11 varð 12 ára drengur á reiðhjóli fyrir bifreið, sem ekið var austur Breiðholtsbraut að Norðurfelli. Drengurinn var að hjóla áleiðis yfir götuna á gangbraut, sennilega á móti rauðu ljósi. Hann meiddist á hné og fór á slysadeild til skoðunar. Og kl. 17.56 varð kona fyrir bifreið á bílastæðinu hjá Húsgagnahöllinni við Bíldshöfða. Mikið myrkur var er atvikið átti sér stað og léleg lýsing. Konan fór sjálf á slysadeild. Hún hafði fleyðrast á höku og marist.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 21. nóvember. Kl. 9.08 var strætisvagni ekið í gegnum grindverk. Strætisvagninum hafði verið ekið norður Flatahraun að gatnamótum Suðurhrauns þar sem vagninum var ekið á grindverkið, inn á athafnasvæði, og út af því aftur uns hann stöðvaðist á Miðhrauni. Ökumaðurinn hafði “dottið út” þegar hann nálgaðist gatnamótin, en rankaði síðan við sér þegar hann var búinn að aka tvívegis í gegnum girðinguna og stöðvaði vagninn. Sjö farþegar voru í strætisvagninum. Þeir kvörtuðu yfir minniháttar meiðslum í baki og fótum og voru því ásamt bílstjóranum fluttir á slysadeild til skoðunar. Kl. 17.15 hjólaði maður á steintyppi á Lækjartorgi og kastast fram fyrir sig. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Og kl. 17.38 varð kona fyrir bifreið, sem bakkað var úr stæði við Krónuna í Vallakór. Konan féll við og var bifreiðinni þá ekið yfir rist hennar. Hún var flutt á á slysadeild með sjúkrabifreið.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Hvorugt kostar peninga, en getur komið í veg fyrir umferðarslys.

Og ökumenn – sýnið örlæti í aðdraganda jólanna og gefið stefnuljós.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.