18 Nóvember 2014 12:00
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 11. nóvember. Kl. 9.56 datt 12 ára stúlka af reiðhjóli í hálku á Gagnvegi á móts við Fjallkonuveg. Hún brotnaði á sköflungi og var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið. Og kl. 16.55 varð 9 ára gamall drengur á reiðhjóli fyrir bifreið á Hjarðarhaga við Kvisthaga. Hann hlaut lítilsháttar skurð á háls og var því fluttur af sjúkraflutningamönnum á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 14. nóvember. Kl. 1.02 var bifreið ekið aftan á aðra í Norðurfelli við Asparfell. Tveir farþegar í fremri bifreiðinni fóru á slysadeild til aðhlynningar, þar af annar með sjúkrabifreið. Ökumaður aftari bifreiðarinnar ók á brott af vettvangi eftir óhappið. Hann var stöðvaður í akstri skömmu síðar grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Og kl. 18:41 lentu tveir reiðhjólamenn saman á hjólastíg á Kópavogstúni. Annar virtist axlarbrotinn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 15. nóvember. Kl. 18.56 var bifreið ekið á ljósastaur á Krókhálsi skammt vestan við Grafarholtsveg. Farþegi var fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 21.29 datt stúlka af vespu á göngustíg við Melbæ. Þrennt hafði verið á vespunni, hjálmlaus. Ökumaður og annar farþeganna þurftu að leita á slysadeild vegna meiðsla.
Vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa að hafa a.m.k. tvennt í huga svo draga megi úr líkum á slysum, annars vegar að vera vakandi og hins vegar að fara varlega. Hvorugt kostar peninga, en getur skipt sköpum þegar koma á í veg fyrir umferðarslys.
Lögreglan verður með sérstakt eftirlit á næstunni þar sem athyglinni verður m.a. beint að ölvunar- og fíkniefnaakstri.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.