12 Nóvember 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. nóvember.

Þriðjudaginn 4. nóvember kl. 20.46 var bifreið ekið á ljósastaur við Vesturlandsveg hjá hringtorgi skammt frá Bauhaus. Dekkjabúnaði bifreiðarinnar var ábótavant. Ökumaðurinn kenndi til eymsla í baki.

Miðvikudaginn 5. nóvember kl. 21.47 var bifreið ekið aftan á aðra á Suðurlandsvegi við Breiðholtsbraut. Ökumaður bifrfeiðarinnar, sem ekið var aftan á, ók á brott af vettvangi. Ökumaður þeirrar fyrrnefndu meiddist lítilsháttar.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 6. nóvember. Kl. 15.07 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á gangbraut í Suðurfelli við Select. Ökumaðurinn hafði blindast af sól skömmu áður en óhappið varð. Hinn gangandi meiddist á enni og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Kl. 20.03 var bifreið ekið á ljósastaur við gatnamót Suðurfells og  Þórufells. Mikið tjón hlaust af. Ökumaðurinn virtist sljór og var því fluttur á slysadeild. Og kl. 20.33 gekk ölvaður, gangandi vegfarandi á kerru aftan í bifreið sem ekið var vestur Lindargötu á móts við hús nr. 66. Maðurinn féll í götuna og meiddist við það á höfði. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Föstudaginn 7. nóvember kl. 18.12 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Reykjanesbraut, leið norður, á beygjuakrein af Reykjanesbraut inn á Bústaðaveg til vesturs. Ökumaður einnar bifreiðarinnar og farþegi annarrar voru fluttir á slysadeild.

Ökumenn þurfa að huga vel að dekkjabúnaði bifreiða sinna. Auk þess þurfa þeir sjálfir að vera vel fyrir kallaðir við akstur. Hið sama gildir um gangandi vegfarendur. Og enn og aftur er ástæða til að minna ökumenn að aka varlega og hafa jafnan gott bil á milli ökutækja.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.
 

Frá vettvangi í Suðurfelli/Þórufelli.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Frá vettvangi í Suðurfelli/Þórufelli.