Frá vettvangi í Norðurfelli.
10 Febrúar 2015 14:53

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. febrúar.

Sunnudaginn 1. febrúar kl. 5.20 hjólaði maður hratt niður Bankastræti og lenti á hlið bifreiðar sem í því var ekið umLækjargötu til norðurs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið, en hann virtist verulega undir áhrifum áfengis.

Mánudaginn 2. febrúar kl. 7.55 var gangandi vegfarandi á leið til suðurs á gangbraut Laugavegs vestan Nóatúns fyrir bifreið, sem ekið var suður Nóatún og beygt áleiðis vestur Laugaveg. Um minniháttar meiðsli var að ræða og leitaði hinn gangandi á slysadeildina síðar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 3. febrúar. Kl. 9.05 klemmdist kona milli tveggja bifreiða á Kringlumýrarbraut. Það gerðist þegar færa átti bifreiðirnar til á vettvangi eftir umferðaróhapp. Konan var flutt á slysadeild. Og kl. 18.25 varð aftanákeyrsla í Norðurfelli við vegþrengingu. Ökumaður var fluttur á slysadeild. Hann virtist vera undir áhrifum lyfja. Akstursaðstæður voru frekar slæmar sökum bleytu og var ísing að byrja að myndast á akbrautinni.

Miðvikudaginn 4. febrúar kl. 8.21 hjólaði maður vestur Reynisvatnsveg og beygði suður Þúsöld, í veg fyrir bifreið, sem ekið var austur Víkurveg og áfram áleiðis austur Reynisvatnsveg. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 5. febrúar. Kl. 7.55 varð sautján ára drengur fyrir bifreið á gangbraut yfir Víkurveg við Fossaleyni. Ökumaðurinn ók á brott af vettvangi eftir að hafa rætt við drenginn. Um var að ræða 50-60 ára gamla konu á ljósgrárri fjögurra dyra Yaris fólksbifreið. Drengurinn þurfti í framhaldinu að leita aðstoðar á slysadeild. Kl. 7.58 var flutningabifreið með tengivagn ekið vestur Vesturlandsveg og beygt til hægri áleiðis í frárennsli að Sæbraut. Í beygjunni lenti hún utan í fólksbifreið, sem ekið var við hlið hennar í sömu akstursstefnu. Ökumaður fólksbifreiðarinnar kenndi til í baki og var fluttur á slysadeild. Kl. 14.31 valt bifreið tvær veltur út af Elliðavatnsvegi við Vífilsstaðavatn. Ökumaðurinn sagðist hafa verið eitthvað annars hugar og  gleymt sér við aksturinn um stund. Hann virtist ómeiddur, en var fluttur til öryggis á slysadeild til skoðunar. Og kl. 15.42 var bifreið ekið á bergvegg Hvalfjarðarganga. Bifreiðin kastaðist aftur út á akbrautina, snerist og lenti með afturhorn utan í veggnum hinum megin. Síðan fór bifreiðin áfram og aftur á sama bergvegg, aðeins neðar. Ökumaðurinn hélt að hann hafi fengið einhverskonar aðsvif. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Vesturlands Akranesi til frekari skoðunar.

Laugadaginn 7. febrúar kl. 21 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku. Allir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreiðum.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Hafa ber í huga að á þessum árstíma getur sólin verið lágt á lofti og blindað ökumönnum sýn. Þá má nefna, að gefnu tilefni, að notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg.

Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi í Norðurfelli.

Frá vettvangi í Norðurfelli.