8 Desember 2014 12:00
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 30. nóvember – 6. desember.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 2. desember. Kl. 8.20 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið við hringtorg Sóleyjargötu og Njarðargötu. Hann var fluttur til aðhlynningar á slysadeild. Og kl. 16.18 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Hafnarfjarðarveg og beygt áleiðis norður Lyngás, og bifreið, sem ekið var vestur Hafnarfjarðarveg. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var aumur í baki og hálsi eftir áreksturinn.
Miðvikudaginn 3. desember kl. 11.50 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Lynghálsar og Stuðlahálsar. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar meiddist á höfði og fór til aðhlynningar á slysadeild.
Fimmtudaginn 4. des. kl. 11.33 var bifreið ekið á ljósastaur við frárein Miklubrautar að Reykjanesbraut. Ökumaðurinn hlaut skrokkskjóður og var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 5. desember. Kl. 14.42 varð 16 ára drengur fyrir strætisvagni í Langarima við Laufrima. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.39 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Háaleitisbraut og beygt áleiðis austur Miklubraut, og bifreið sem ekið var norður Háaleitisbraut. Ökumaður og tveir farþegar í annarri bifreiðinni voru færðir á slysadeild.
Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Hvorugt kostar peninga, en getur komið í veg fyrir umferðarslys með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Og ökumenn – sýnið örlæti í aðdraganda jólanna og gefið stefnuljós. Í desembermánuði er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í sérstöku eftirliti með ölvunar-, lyfja- og fíkniefnaakstri.
Frá vettvangi á Miklubraut.