1 Desember 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. nóvember.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 25. nóvember. Kl. 16.45 varð aftanákeyrsla við gatnamót Fjarðarhrauns og Stakkahrauns. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.54 var bifreið ekið á umferðarskilti við Elliðavatnsveg og síðan út af skammt norðan við Maríuhella. Flughálka hafði myndast á veginum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 26. nóvember. Kl. 12.04 varð aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut. Ökumaður var fluttur á slysadeild með minniháttar meiðsli. Kl. 13.42 datt hjólreiðarmaður í hálku á gatnamótum Sólvallagötu og Vesturvallagötu. Hann fann til eymsla í baki og var því fluttur á slysadeild. Og kl. 20.03 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut og inn á aðrein að Stekkjarbakka. Þar missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni í hálku með þeim afleiðingum að hún fór yfir vegstein, niður grasbarð og á öfugan vegarhelming á frárein Stekkjarbakka. Þar snerist bifreiðin í hálfhring og í veg fyrir bifreið, sem ekið var um fráreinina. Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 28. nóvember kl. 21.32 varð 14 ára drengur, er hljóp á gangbraut áleiðis yfir Bústaðaveg á móts við Grímsbæ, fyrir bifreið, sem ekið hafði  verið austur götuna. Gulblikkandi ljós voru við gangbrautina er slysið varð. Drengurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 29. nóvember kl. 0.42 var bifreið ekið í vinstri beygju á Fífuhvammsvegi á móts við Salalaug og í veg fyrir aðra. Við áreksturinn meiddist farþegi í annarri bifreiðinni. Hann var fluttur á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Hvorugt kostar peninga, en getur komið í veg fyrir umferðarslys með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Og ökumenn – sýnið örlæti í aðdraganda jólanna og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi í Stekkjarbakka.

Frá vettvangi í Stekkjarbakka.