Frá vettvangi á Hringbraut.
22 Desember 2014 10:47
Frá vettvangi á Hringbraut.

Frá vettvangi á Hringbraut.

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20 desember.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 16. desember. Kl. 12.42 varð fjögurra bifreiða árekstur á Reykjanesbraut skammt sunnan Vífilsstaðavegar. Ökumenn tveggja bifreiða voru fluttir á slysadeild vegna meiðsla. Óveður geisaði og sá varla út úr augum vegna snjókomu. Og kl. 13.19 varð einnig fjögurra bifreiða árekstur á Reykjanesbraut norðan Vífilsstaðavegar. Ein bifreiðin rann til í hálku með fyrrgreindum afleiðingum. Óveður geisaði. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 18. desember kl. 22.36 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Hringbraut móts við Þjóminjasafnið. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar var grunaður um akstur undir áhrifum lyfja. Hann var fluttur á slysadeild. Þá kvörtuðu hinir ökumennirnir undan eymslum í höfði og hálsi og ætluðu að leita sér aðhlynningar ef það reyndist nauðsynlegt.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 19. desember. Kl. 0.46 varð árekstur þriggja bifreiða á Hafnarfjarðarvegi við Hamraborg. Bifreið hafði verið stöðvuð við brún akbrautar því skipta þurfti um sprungið dekk. Settur hafði verið upp viðvörunarþríhyrningur um 10 metrum fyrir aftan bifreiðina. Þá var þremur bifreiðum ekið í sömu átt, á hægri og vinstri akrein. Þegar gatan þrengdist rákust bifreiðirnar saman. Einn ökumannanna og þrír farþegar í sömu bifreið kenndu til eymsla eftir óhappið og ætluðu að leita sér aðstoðar ef þurfa þyrfti. Og kl. 19.30 varð aftanákeyrsla í Lönguhlíð við Skaftahlíð. Farþegi í annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. desember. Kl. 21.16 var bifreið ekið aftur á bak við Engihjalla og á hlið bifreiðar, sem ekið var framhjá. Ökumaður síðarefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild vegna eymsla í hálsi og í baki. Og kl. 23.19 varð árekstur með bifreið sem ekið var vestur Sæbraut og beygt til suðurs á gatnamótum Langholtsvegar og bifreið sem ekið var austur Sæbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar slasaðist. Klippa þurfti bifreiðina utan af honum áður en hann var fluttur á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Hvorugt kostar peninga, en getur komið í veg fyrir umferðarslys. Sérstaka aðgát þarf að hafa þegar veður er vont og skyggni takmarkað – að ógleymdri hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við.

Ökumenn – sýnið örlæti í aðdraganda jólanna og gefið stefnuljós.
Í desembermánuði er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í sérstöku eftirliti með ölvunar-, lyfja- og fíkniefnaakstri.