Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
30 Desember 2014 18:10

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27 desember.

Sunnudaginn 21. desember kl. 11.01 varð árekstur með bifreið sem var ekið austur Miklubraut og áleiðis yfir gatnamót Kringlumýrarbrautar mót rauðu ljósi og bifreið sem var ekið norður Kringlumýrarbraut. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar í annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 22. desember kl. 19.02 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Lækjargötu við Austurstræti. Um minniháttar meiðsli var að ræða. Hlutaðeigandi var þó fluttur á slysadeild til skoðunar.

Þriðjudaginn 23. desember kl. 11.56 ók kínverskur ferðamaður fjórhjóli inn í hringtorg við Lambhagaveg/Skyggnisveg. Í beygjunni féll ökumaðurinn af hjólinu og meiddist við það á höfði. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 25. desember 9.22 var ekið á kyrrstæða eldneytislausa bifreið á Hringbraut skammt vestan við Njarðargötu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar meiddist á fæti, en hann hafði nýstigið út úr henni þegar áreksturinn varð. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 27. desember. Kl. 17.11 varð aftanákeyrsla á Rauðarárstíg sunnan Flókagötu. Ökumanni aftari bifreiðarinnar var ekið á slysadeild. Kl. 17.46 varð aftanákeyrsla á Miklubraut austan Grensásvegar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.22 varð árekstur með þremur bifreiðum á Reykjanesbraut móts við Ásland. Bifreið, sem var ekið til norðurs eftir Reykjanesbraut, var sveigt yfir á öfugan vegarhelming þegar bifreið á undan henni var hemlað skyndilega. Við það lenti hún á bifreið, sem kom á móti, snerist og lenti þá á þriðju bifreiðinni. Éljagangur var og hálka. Farþegi í bifreiðinni meiddist á baki og var fluttur á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að hafa þegar veður er vont og skyggni takmarkað – sem og í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Þá er ávallt nauðsynlegt að hafa gott bil á milli ökutækja svo ökumaður geti stöðvað örugglega á a.m.k. þriðjungi þeirrar vegalengdar, sem er auð framundan.
Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Í desembermánuði er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í sérstöku eftirliti með ölvunar-, lyfja- og fíkniefnaakstri.