Frá vettvangi við Reykjanesbraut.
20 Janúar 2015 12:16

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. janúar.

Sunnudaginn 11. janúar kl. 23.03 var bifreið ekið á ljósastaur við frárein af Miklubraut yfir á Reykjanesbraut. Færðin var slæm, mikill snjór og hálka undir honum. Ökumaður var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Mánudaginn 12. janúar kl. 13.09 varð kona fyrir bifreið á gangbraut við gatnamót Dvergshöfða og Höfðabakka. Bifreiðinni hafði verið ekið suður Höfðabakka. Konan var flutt á slysadeild. Hálka og snjóruðningar voru á vettvangi þegar óhappið varð, auk þess sem skær sólin var lágt á lofti.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 13. janúar. Kl. 7.56 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á gangbraut á Nónhæð við Hæðarbraut. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.30 urðu tveir gangandi vegfarendur, erlendir ferðamenn, karl og kona, á gangbraut fyrir bifreið, sem ekið var norður Kringlumýrarbraut við Laugaveg. Þau voru bæði flutt á slysadeild með minniháttar meiðsli.

Miðvikudaginn 14. janúar kl. 17.12 varð hörð aftanákeyrsla á frárein Miklubrautar til suðurs að Sæbraut. Ökumaður aftari bifreiðarinnar þurfti að leita aðhlynningar á slysadeild.

Fimmtudaginn 15. janúar kl. 13.59 varð aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut til suðurs við gatnamót Laugavegs. Lítið tjón var á bifreiðunum. Farþegi og ökumaður fremri bifreiðarinnar fóru þó til skoðunar á slysadeild.

Laugardaginn 17. janúar kl. 9.25 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut. Þegar ökumaður færði sig á milli akreina þar sem tvöföldun vegarins líkur sunnan Straums missti hann vald á bifreiðinni þannig að hún fór að skríða til og hafnaði á hlið utan við veg.  Ökumaðurinn meiddist minniháttar og var fluttur á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að hafa þegar veður er vont og skyggni takmarkað – sem og í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Hafa ber í huga að á þessum árstíma getur sólin verið lágt á lofti og blindað ökumönnum sýn. Þá má nefna, að gefnu tilefni, að notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg.

Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.