27 Janúar 2012 12:00

Tvö umferðarslys hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Á þriðjudag klukkan 13.10 varð tveggja bíla árekstur á mótum Snorrabrautar og Egilsgötu en þar eru ljósastýrð gatnamót. Ökumaður á leið norður Snorrabraut hugðist beygja inn á Egilsgötu en ók þá í veg fyrir bíl sem kom suður Snorrabraut. Fyrrnefndi ökumaðurinn fékk áverka á brjóstkassa og var fluttur á slysadeild en meiðslin voru talin minniháttar. Og í gærmorgun klukkan 8.13 varð annar tveggja bíla árekstur, en þá á ljósastýrðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Seljaskóga. Ökumaður á leið vestur Breiðholtsbraut hugðist beygja inn í Seljaskóga en ók þá í veg fyrir bíl sem kom austur Breiðholtsbraut. Fyrrnefndi ökumaðurinn var fluttur á slysadeild en áverkar hans, á hálsi og fæti, voru taldir minniháttar. Í báðum slysunum viðhöfðu ökumennirnir ekki sérstaka aðgát við vegamót, líkt og kveðið er á um í 25. umferðarlaga.

Það er mat lögreglu að hægt sé að koma í veg fyrir umferðarslys leggist allir á eitt um að aka gætilega og sýna tillitssemi í hvívetna. Á það skortir í allt of mörgum tilfellum. Til að freista þess að sýna fram á tengsl orsaka og afleiðinga að þessu leyti mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu senda út tilkynningu tvisvar í viku með upplýsingum um þau umferðarslys sem hún kemur að.  Þar mun koma fram hvar, hvenær og með hvaða hætti slysið varð, að hverju rannsókn lögreglu beinist, hversu margir slösuðust og eftir atvikum alvarleiki meiðslanna.

Um tilraunaverkefni lögreglu er að ræða. Það mun standa yfir í einn mánuð til að byrja með og hófst formlega 1. janúar. Tilkynningarnar eru sendar út á þriðjudögum og föstudögum. Frá áramótum hafa orðið tuttugu umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu.