17 Febrúar 2015 14:59
Í síðustu viku slasaðist tuttugu og einn vegfarandi í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. febrúar.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 8. febrúar. Kl. 11.47 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Þúsaldar, Reynisvatnsvegar og Víkurvegar þegar annarri bifreiðinni var beygt í veg fyrir hina. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreiðum. Kl. 19.21 varð árekstur á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar með bifreiðum, sem ekið var austur Bústaðaveg með ætlaða akstursstefnu norður Háaleitisbraut, gegn rauðu beygjuumferðarljósi, og bifreið, sem var ekið vestur Bústaðaveg. Báðir ökumennirnir ætluðu að leyta aðhlynningar á slysadeild. Og kl. 21.31 var bifreið ekið vestur Krýsuvíkurveg. Í beygju á veginum á móts við Steinhellu valt bifreiðin. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. febrúar. Kl. 8.01 varð árekstur með bifreið sem ekið var vestur Álftanesveg og beygt áleiðis suður Herjólfsgötu og bifreið sem ekið var austur Álftanesveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Og kl. 13.54 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Fjarðargötu gegnt Landsbankanum. Hann var fluttur á slysadeild. Þegar óhappið varð var hvasst og gekk á með éljum.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 11. febrúar. Kl. 8.26 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut gegnt Smáralind. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar hafði ekki tekið eftir að bifreiðir höfðu verið stöðvaðar á akreininni framundan. Hann ók því af fullum þunga á næstu kyrrstæðu bifreið, sem síðan kastaðist áfram á þá þriðju. Ökumenn tveggja bifreiða voru fluttir á slysadeild. Kl. 19.41 var bifreið ekið á ljósastaur við Hafnarfjarðarveg gegnt Hagkaup. Ökumaðurinn kenndi til í baki eftir óhappið og ætlaði að leita aðstoðar lækna á slysadeild. Kl. 22.29 var bifreið ekið vestur Suðurlandsveg, að Bæjarhálsi, og yfir á öfugan vegarhelming, í veg fyrir bifreið, sem ekið var austur Suðurlandsveg. Beita þurfti klippum til að ná ökumanni úr annarri bifreiðinni. Hann var með mikla áverka, opin beinbrot á báðum sköflungum og opið lærleggsbrot á vinstra fæti. Hann, ásamt hinum ökumanninum, var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Og kl. 23.21 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg. Á móts við Kópavogslæk snerist bifreiðin á akbrautinni, lenti utan í vegriði og valt síðan utan vegar. Slæm akstursskilyrði voru á vettvangi, snjókoma, talsverður vindur og hálka. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Skömmu eftir veltuna var bifreið ekið á tvær aðrar bifreiðar á vettvangi.
Fimmtudaginn 12. febrúar kl. 14.43 varð aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi við Lækjarfit. Alls skemmdust sjö bifreiðar í árekstrinum. Þrír ökumenn voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreiðum.
Föstudaginn 13. febrúar kl. 19.55 varð árekstur með bifreið sem ekið var vestur Suðurlandsbraut, eftir vinstri akrein, og inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi, og bifreið, sem ekið var af Reykjavegi inn á Suðurlandsbraut með fyrirhugaða akstursstefnu austur Suðurlandsbraut. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 14. febrúar Kl. 0.59 var bifreið ekið á ljósastaur við Fylkisveg og síðan á kyrrstæða bifreið. Farþegi var fluttur á slysadeild.
Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót.