Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
23 Febrúar 2015 17:03

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. febrúar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 15. febrúar. Kl. 17.15 varð umferðarslys á gatnamótum Nauthólsvegar og Hringbrautar. Bifreið hafði verið ekið norður Nauthólsveg að Hringbraut, með ætlaða akstursstefnu austur Hringbraut. Ökumaðurinn virðist hafa síðan hafa ekið beint upp á umferðareyju og staðnæmst á kantsteini sem afmarkar gönguleið á umferðareyjunni. Ökumaður festist í bifreiðinni og þurftu sjúkraflutningamenn að klippa hann lausan. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.37 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á bifreiðarstæði norðan við Smáralind á annarri hæð framan við Smárabíó. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Mánudaginn 16. febrúar kl. 16.30 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Gullinbrú með þeim afleiðingum að hún valt og hafnaði á ljósastaur. Lögreglan ók ökumanninum á slysadeild til skoðunar.

Þriðjudaginn 17. febrúar kl. 22.45 var bifreið beigt í veg fyrir aðra á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Farþegi annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg.

Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.