Frá vettvangi á Sæbraut.
3 Mars 2015 15:18
Frá vettvangi á Sæbraut.

Frá vettvangi á Sæbraut.

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. febrúar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 22. febrúar. Kl. 4.44 var bifreið ekið austur Sæbraut og á ljósastaur við gatnamót Kringlumýrarbrautar. Ökumaður er grunaður um ölvun við akstur. Hann og tveir farþegar, sem voru í bifreiðinni, voru fluttir á slysadeild. Og kl. 12.43 lenti bifreið, sem ekið var eftir Suðurlandsvegi í suður, á ljósastaur á móts við Rauðavatn þegar snörp vindkviða feykti henni til hliðar á veginum með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði á ljósastaur. Ökumanni var ekið á slysadeild til frekari aðhlynningar eftir óhappið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 24. febrúar. Kl. 8.23 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á mótum Vættaborga og Strandvegar. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.19 varð þriggja bifreiða árekstur á gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar. Umferðarljós eru við gatnamótin. Farþegi í einni bifreiðinni, 10 mánaða gamalt barn, var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Miðvikudaginn 25. febrúar kl. 12.01 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Nýbýlaveg, og annarri, sem ekið var norður Hjallabrekku áleiðis áfram norður Birkigrund. Við áreksturinn kastaðist síðarnefnda bifreiðin á þriðju bifreiðina, sem ekið var suður Birkigrund. Allir ökumennirnir þrír voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 26. febrúar kl. 8.22 var strætisvagni ekið aftan á kyrrstæða bifreið í Hamrahlíð við Stakkahlíð. Ökumaður og farþegi bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 27. febrúar kl. 14.14 var vörubifreið með krana í uppréttri stöðu ekið austur Reykjanesbraut og á brúnna við Kauptún. Bifreið, sem ekið var næst á eftir, lenti á brakinu. Ökumaður vörubifreiðarinnar ætlaði að leita aðhlynningar á slysadeild.

Laugardaginn 28. febrúar kl. 1.14 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut á móts við Kauptún þegar hjól hennar lentu í snjórás. Ökumaðurinn náði að beygja bifreiðinni inn á akbrautina aftur með þeim afleiðingum að hún lenti á kyrrstæðri bifreið hægra megin brautarinnar. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar og eigandi þeirrar síðarnefndu voru fluttir á slysadeild.

Banaslys
Karlmaður, sem ók bifreið sinni upp á umferðareyju og staðnæmdist á kantsteini við gatnamót Nauthólsvegar og Hringbrautar sunnudaginn 15. febrúar, lést á Landspítalanum þann 19. febrúar. Hann var fæddur árið 1937.