Frá vettvangi á Seltjarnarnesi.
10 Mars 2015 15:15

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. mars.

Sunnudaginn 1. mars kl. 21.08 var tilkynnt að ekið hefði verið á 12 ára dreng og ökumaður ekið af vettvangi. Drengurinn hafði komið úr strætó og gengið göngustíg frá Miklubraut er liggur að Stigahlíð/Bogahlíð. Þar hafi hann verið á leið yfir gatnamótin er fólksbíl var ekið á hann þannig að hann kastaðist í götuna. Móðir drengsins ætlaði að fara með hann á slysadeild til aðhlynningar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 3. mars. Kl. 9.16 varð aftanákeyrsla á afrein Njarðargötu að Hringbraut. Ökumaður og tvö börn í aftursæti fremri bifreiðarinnar voru flutt á slysadeild. Og kl. 11.02 var bifreið ekið á ljósastaur við hringtorg á Bæjarbraut við Karlabraut. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 5. mars. Kl. 14.40 varð 70 ára gömul kona fyrir bifreið á Háaleitisbraut. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 20.07 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Suðurströnd í aflíðandi hægri beygju á móts við Unnarbraut, og bifreið sem ekið var suður Suðurströnd. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.18 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vatnsendavegi við Fannahvarf með þeim afleiðingum að hún lenti utan vegar og staðnæmdist á ljósastaur og bekk. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 7. mars. Kl. 13:13 varð aftanákeyrsla á afrein Breiðholtsbrautar að Norðurfelli. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Kl. 21.20 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg og beygt áleiðis suður Eyrarland, í veg fyrir bifreið, sem ekið var austur Bústaðaveg. Ökumaður og farþegi í annarri bifreiðinni og ökumaður í hinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.39 valt bifreið af Suðurlandsvegi við Bláfjallaafleggjara. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót.
Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg.

Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Seltjarnarnesi.

Frá vettvangi á Seltjarnarnesi.