24 Janúar 2012 12:00

Fjögur umferðarslys hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Á föstudagskvöld klukkan 23.50 varð árekstur á gatnamótum Hafnarstrætis og Tryggvagötu. Ökumaður, sem var á leið frá Hafnarstræti, virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir bíl á leið austur Tryggvagötu. Við það kastaðist bíllinn á síðarnefndu götunni á þriðja ökutækið, sem einnig var á Tryggvagötu. Farþegi úr einum bílanna fékk höfuðáverka og var fluttur á slysadeild. Hinn sami, sem sat í aftursæti, var ekki í bílbelti. Aðfaranótt sunnudags kl. 0.13 var jepplingi ekið á staur við Hafnarfjarðarveg, á móts við N1 í Fossvogi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild en sá síðarnefndi var með fjöláverka. Ljóst þykir að ekið hafi verið of hratt miðað við aðstæður. Sama dag klukkan 18.23 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Bústaðavegur og Réttarholtsvegar. Öðrum bílnum var ekið austur Bústaðaveg en hinum vestur. Ökumaður fyrrnefnda bílsins ætlaði að beygja inn á Réttarholtsveg en ók þá í veg fyrir þann sem kom vestur Bústaðaveg. Einn var fluttur á slysadeild. Og í gærkvöld klukkan 20.23 valt bíll út af Vesturlandsvegi á móts við bæinn Móa á Kjalarnesi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Talið er að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bílnum þegar vindhviða gekk yfir veginn. Eftir því sem lögregla veit best er um minniháttar áverka að ræða hjá öllum þeim sem slösuðust í áðurnefndum umferðarslysum. 

Það er mat lögreglu að hægt sé að koma í veg fyrir umferðarslys leggist allir á eitt um að aka gætilega og sýna tillitssemi í hvívetna. Á það skortir í allt of mörgum tilfellum. Til að freista þess að sýna fram á tengsl orsaka og afleiðinga að þessu leyti mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu senda út tilkynningu tvisvar í viku með upplýsingum um þau umferðarslys sem hún kemur að.  Þar mun koma fram hvar, hvenær og með hvaða hætti slysið varð, að hverju rannsókn lögreglu beinist, hversu margir slösuðust og eftir atvikum alvarleiki meiðslanna.

Um tilraunaverkefni lögreglu er að ræða. Það mun standa yfir í einn mánuð til að byrja með og hófst formlega 1. janúar. Tilkynningarnar eru sendar út á þriðjudögum og föstudögum. Frá áramótum hafa orðið átján umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu.