15 Maí 2009 12:00

Um klukkan tvö í dag barst lögreglu tilkynning um ofsaakstur fólksbifreiðar við Rauðavatn á leið austur.  Nokkrar tilkynningar bárust síðar um bifreiðina þar sem henni væri ekið hratt og ógætilega framúr ökutækjum.  Lögreglumenn sem voru við umferðareftirlit á Suðurlandsvegi í Ölfusi mættu bifreiðinni rétt austan við Hveragerði.  Ökuhraði hennar mældist þá 118 km miðað við klukkustund.  Þeir snéru við á eftir bifreiðinni en ökumaður hennar hélt ferð sinni áfram.  Á móts við Gljúfjárholt missti ökumaður bifreiðina út af veginum hægra megin miðað við akstursstefnu og hafnaði þar á hvolfi ofan í skurði.  Eldur kom upp í bifreiðinni en lögreglumennirnir slökktu hann með handslökkvitæki.  Kalla þurfti út menn frá slökkviliði Hveragerðis til að koma ökumanni, sem var einn í bifreiðinni, út úr henni svo og til að vera til taks ef eldur kæmi aftur upp en þá hefði verið hætta á að hann bærist í sinu sem var allt umhverfis bifreiðina.  Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild Landspítala í Reykjavík en hann er þó ekki talinn alvarlega slasaður.  Bifreiðin er ónýt og var flutt af vettvangi með kranbifreið.  Ökumaðurinn var 16 ára og því ekki með ökuréttindi.  Umferð austur Suðurlandsveg var beint inn á Hvammsveg á meðan unnið var á vettvangi.