13 Maí 2022 18:57

Eitt umferðarslys er skráð hjá lögreglunni á Austurlandi í aprílmánuði síðastliðnum. Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni vegna hálku og vinds á leið um Fagradal og endaði utan vegar. Ökumaður var einn í bifreiðinni og fluttur með sjúkrabifreið undir læknishendur. Meiðsl hans eru ekki talin alvarleg.

Þrettán umferðarslys eru nú skráð fyrstu fjóra mánuði ársins í fjórðungnum en voru sjö á sama tíma í fyrra.

Lögregla hvetur af því tilefni ökumenn til að fara varlega og gæta sérstaklega að hraða ökutækja sinna, nú þegar aðstæður batna með hækkandi sól. Hún mun gera sitt til að vera sýnileg í umferðinni hvort heldur utanbæjar eða innan og hvetja ökumenn þannig til aðgæslu í hvívetna. Hún stefnir og að því næstu fjórar vikur að sinna hraðaeftirliti á tilteknum stöðum í samræmi við fyrirfram ákveðið skipulag á vegarköflum þar sem slys eru tíð eða hraði of mikill. Hún mun kynna það hvar hún verður hverju sinni í samræmi við stefnu og markmið um sýnileika. Eftirlitið byrjar formlega á mánudag klukkan átta að morgni og verður á Háreksstaðaleið, í Langadal og Víðidal. Það mun standa frá klukkan átta að morgni til tvö eftir hádegi og verður svo fram haldið á þriðjudag á sömu vegarköflum á sama tíma. Næstu eftirlitsstaðir verða kynntir á þriðjudag.

Munum að gæta að okkur í umferðinni þannig að allir komist heilir á leiðarenda, hvort heldur menn eða málleysingjar.