13 Mars 2008 12:00

Lögreglu barst kl. 15:39 í dag tilkynning um alvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi ofarlega í Kömbum.  Sjúkra- og lögreglulið fór þegar á vettvang auk tækjabíls frá slökkviliðinu í  Hveragerði.  Jeppabifreið var á leið upp Kamba þegar hún rann til í krapa og lenti við það utan í fólksbifreið sem var á akrein hægra megin við.  Jeppinn snérist í hálfan hring og rann aftur á bak yfir á þann vegarhelming sem ætlaður er umferð til austurs.  Í því kom jepplingur úr vestri og skipti engum togum að hann skall á afturenda jeppans sem rann aftur á bak á móti jepplingnum.  Í jepplingnum voru eldri hjón og þurfti að klippa þau út úr bifreiðinni.  Í jeppanum voru tveir karlmenn.  Hjónin og ökumaður jeppans voru flutt með sjúkrabifreiðum á slysadeild Landspítala í Reykjavík.  Farþegi í jeppanum var fluttur til skoðunnar á heilsugæslustöðinni á Selfossi.  Ekki er vitað hve alvarleg meiðsli fólksins eru en enginn er talinn vera í lífshættu.   Fólksbifreiðin skemmdist mjög lítið en hin ökutækin, jeppinn og jepplingurinn, mikið skemmd ef ekki ónýt.