27 Maí 2006 12:00

Mikil umferð var austur á Kirkjubæjarklaustur seinnipartinn í gær og fram á nótt í tengslum við mótorkrossmót sem haldið er þar um helgina. Talið er að á annað þúsund manns séu nú  samankomin á Kirkjubæjarklaustri og nágrenni.

 Umferðin gekk ágætlega fyrir sig en þó ekki alveg áfallalaust því lögreglan kærði 15 ökumenn fyrir of hraðan akstur og var sá sem hraðast ók á 124 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90.

Þá var tilkynnt um umferðarslys á Mýrdalssandi kl. 01:41 í nótt. Ökumaður hafði misst stjórn á bifreið sinni sem endaði utan vegar og enda stakkst áður en hún stöðvaðist 100 metrum utan við veginn. Auk lögreglu komu læknar frá Kirkjubæjarklaustri og Vík ásamt sjúkrabifreið á vettvang. Þrír voru í bifreiðinni og var einn fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi til frekari rannsóknar. Hann er ekki talinn alvarlega slasaður. Bifreiðin var fjarlægð með kranabifreið af vettvangi.

Skemmtanahald á Kirkjubæjarklaustri fór ágætlega fram í nótt en einn ökumaður var stöðvaður grunaður um ölvun við akstur. Þá var einn aðili handtekinn og færður á lögreglustöðina til yfirheyrslu vegna gruns um vörslu fíkniefna en við leit fannst lítilræði af meintu amfetamíni í fórum hans. Manninum var sleppt að yfirheyrslu lokinni og telst málið upplýst.