29 Janúar 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók litlum, silfurgráum fólksbíl, mögulega Suzuki Swift, á karl á fimmtugsaldri í Álfheimum við Gnoðarvog í Reykjavík um klukkan 15 sunnudaginn 13. janúar. Lögreglu var tilkynnt um slysið sl. föstudag en við skoðun á slysadeild kom í ljós að maðurinn var talsvert lemstraður. Ökumaður bílsins var ung kona, en hún nam staðar á vettvangi, ræddi við manninn og bauðst til að gera viðeigandi ráðstafanir. Þá taldi maðurinn það vera óþarfa og gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins.

Lögreglan biður umræddan ökumann um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að  hafa samband í síma 444-1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is