1 Nóvember 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók litlum fólksbíl á konu á fimmtugsaldri á gangbraut við Borgarholtsbraut í Kópavogi, rétt vestan við hringtorgið við Hamraborg 6a, um klukkan 7.45-7.50 sl. miðvikudagsmorgun, 30. október, þannig að líkamstjón hlaust af. Hlutaðeigendur ræddu saman á vettvangi, en lögreglan var ekki kölluð til. Henni var tilkynnt um málið í gær, en gangandi vegfarandinn hafði þá fundið fyrir verkjum í kjölfar óhappsins og reyndist mjög illa marinn.

Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi. Lögreglan biður umræddan ökumann, lágvaxna, unga konu með ljóst, liðað hár, um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að  hafa samband í síma 444-1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum til lögreglunnar á fésbókarsíðu hennar.