6 Febrúar 2015 13:53
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók Toyota Yaris, líklega ljósgráum að lit, á 17 ára pilt á gangbraut á mótum Víkurvegur og Fossaleynis í Grafarvogi rétt fyrir kl. 8 í gærmorgun, fimmtudaginn 5. febrúar, þannig að líkamstjón hlaust af. Ökumaðurinn kallaði stuttlega til piltsins í kjölfar þessa og ók svo strax af vettvangi, en lögreglan var ekki kölluð til. Henni var tilkynnt um málið eftir hádegi í gær, en pilturinn hafði þá fundið fyrir verkjum í kjölfar slyssins og leitað aðhlynningar á slysadeild.
Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi. Lögreglan biður umræddan ökumann, konu á fimmtugs- eða sextugsaldri að talið er, um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið hildur.run@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.