4 Mars 2007 12:00

Laust eftir kl. 17 í dag varð umferðarslys á Suðurlandsvegi, skammt vestan við Hvolsvöll. Þar varð árekstur á milli sjúkrabifreiðar sem ekið var í vesturátt og lítillar fólksbifreiðar sem ekið var í gagnstæða átt. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur með þyrlu landhelgisgæslunnar á slysadeild LSH í Fossvogi. Ökumaðurinn, sem er erlend kona er nokkuð slösuð, en mun ekki vera í lífshættu skv. upplýsingum frá LSH. Beita varð klippum til að ná konunni út úr bifreiðinni.

Sjúkrabifreiðin var í sjúkraflutningi, en ekki ekið á forgangi og því ekki með forgangsljós kveikt. Annar sjúkraflutningsmannanna slasaðist lítilsháttar á síðu, en hann var staðsettur aftur í sjúkrabifreiðinni, hjá sjúklingnum þegar óhappið varð.  Aðilinn sem var í sjúkraflutningi sakaði ekki.

Tildrög slyssins voru þau að fólksbifreiðinni var skyndilega sveigt yfir á öfugan vegarhelming skömmu áður en bifreiðarnar mættust, en ökumaður sjúkrabifreiðarinnar reyndi að sveigja út af veginum um leið og hann sá hvað í stefndi, en þrátt fyrir það rákust bifreiðarnar saman með áðurgreindum afleiðingum.

Frekari tildrög slyssins eru í rannsókn hjá lögreglunni á Hvolsvelli.