7 Desember 2011 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á Hafnarfjarðarvegi, skammt frá bensínstöð N1 í Fossvogi, klukkan 7.41 í morgun. Þar var grárri BMW-bifreið ekið aftan á kyrrstæða lögreglubifreið í vegkantinum. Áreksturinn var harður og eru bílarnir nokkuð skemmdir. Þrír voru fluttir á slysadeild, þ.e. ökumaðurinn á BMW-inum, en sá var á suðurleið þegar slysið varð, og tveir lögreglumenn. Þeir síðarnefndu sátu inni í lögreglubílnum þegar á hann var ekið en lögreglumennirnir voru að ræða við aðila, sem hafði komið við sögu í öðru umferðaróhappi á Hafnarfjarðarvegi. Sá virðist hafa sloppið við teljandi meiðsli þrátt fyrir að hafa lent í tveimur árekstrum með mjög skömmu millibili.

Þeir sem urðu vitni að slysinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Einnig má koma upplýsingum á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is