6 September 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð norðan við gatnamót Álfabakka og Árskóga í Reykjavík síðdegis í gær, miðvikudaginn 5. september. Tilkynning um slysið barst klukkan 17.45 en svo virðist sem bifhjólamaður, sem átti þarna leið um, hafi misst stjórn á hjólinu og slasast illa. Rétt hjá gatnamótunum eru brú (Breiðholtsbraut) og undirgöng en bifhjólið lá við steinsteyptan vegg austanmegin ganganna þegar komið var á vettvang. Ökumaðurinn, karl um sjötugt, var skammt frá hjólinu þegar að var komið. Meiðsli hans voru alvarleg.

Þeir sem urðu vitni að slysinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is