16 Nóvember 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns í Reykjavík laust fyrir klukkan hálfellefu þriðjudagskvöldið 9. nóvember. Þar rákust saman hvít Toyota Yaris og ljósbrúnn Hyundai Sonata en ökumönnum þeirra ber ekki saman um stöðu umferðaljósa. Toyotunni var ekið austur Borgartún og inn á gatnamótin, í átt að Sundlaugavegi. Hyundai-bílnum var hinsvegar ekið norður Kringlumýrarbraut áleiðis að Sæbraut. Ökumaður Toyotunnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Miklar skemmdir urðu á bílunum. Þeir sem urðu vitni að slysinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.

Frá gatnamótum Borgartúns og Kringlumýrarbrautar.

Toyotan var illa farin eftir áreksturinn en ökumaður hennar var fluttur á slysadeild.