28 Febrúar 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók jepplingi, líklega rauðleitum, aftan á Toyota Land Cruiser, hvítan að lit, við gangbraut við gatnamót Langholtsvegar og Álfheima í Reykjavík þriðjudaginn 26. febrúar klukkan 15.30. Ökumaður Toyotunnar, kona á þrítugsaldri, hafði numið staðar á rauðu ljósi þegar árekstrinn varð, en höggið var töluvert og mátti sjá skemmdir á jepplingnum. Ökumaður hans taldi hins vegar ástæðulaust að fylla út skýrslu vegna málsins og ók því af vettvangi.

Lögreglu var tilkynnt um málið í gær, en þá hafði konan fundið fyrir verkjum í kjölfar áreksturins og ætlaði hún að leita á slysadeild. Lögreglan biður ökumann jepplingsins, sem er talinn vera karl á miðjum aldri og með gleraugu, um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að árekstrinum eru hinir sömu beðnir um að  hafa samband í síma 444-1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is