19 Desember 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á gatnamótum Stekkjarbakka og Höfðabakka í Reykjavík kl. 0.46 fimmtudaginn 19. desember. Þar rákust saman ljósbrúnn Kia Carnival (KP-246) og svartur Mitsubishi 3000GT (NU-328), en ökumönnunum ber ekki saman um stöðu umferðarljósa. Kia-bílnum var ekið suður Höfðabakka og Mitsubishinum austur Stekkjarbakka, en ökumaður síðarnefnda bílsins hugðist beygja á gatnamótunum og aka síðan áfram norður Höfðabakka þegar áreksturinn varð. Farþegi úr öðrum bílnum var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Þeir sem urðu vitni að árekstrinum eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglunnar.