12 Nóvember 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á gatnamótum í Stekkjarbakka í Reykjavík laust fyrir klukkan 9 laugardagsmorguninn 6. nóvember.  Þar rákust saman grá Toyota Corolla og dökkgrænn Nissan Terrano en ökumönnum þeirra ber ekki saman um stöðu umferðaljósa. Toyotunni var ekið norður Stekkjarbakka og yfir gatnamótin, sem eru norðaustur af Aktu Taktu, að aðrein sem liggur að Reykjanesbraut. Jepplingurinn kom úr gagnstæðri átt en ökumaður hans, sem var á beygju aðrein, hugðist aka Stekkjarbakka í austurátt að Höfðabakka. Ökumaður Toyotunnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Nokkrar skemmdir urðu á bílunum. Þeir sem urðu vitni að slysinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en málið er til rannsóknar á lögreglustöðinni í Kópavogi.

Gatnamótin, horft til vesturs. Toyotan er vinstra megin en Nissan-jeppinn er fyrir miðri mynd.

Gatnamótin, horft til norðurs.