31 Janúar 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels í Reykjavík um klukkan hálfellefu í morgun, mánudaginn 31. janúar. Þar rákust saman ljósgrár Volkswagen Polo og svartur Nissan Navara en ökumönnum þeirra ber ekki saman um stöðu umferðaljósa. Minni bílnum var ekið austur Breiðholtsbraut en sá stærri fór norður Skógarsel en ökumaður hans hugðist beygja til vinstri á gatnamótunum og aka síðan Breiðholtsbraut í vestur. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en nokkrar skemmdir urðu á bílunum. Þeir sem urðu vitni að slysinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en málið er til rannsóknar á lögreglustöðinni í Kópavogi.
Frá vettvangi slyssins. Gatnamótin, horft til austurs.