29 Mars 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á gangbraut í Rofabæ í Reykjavík, skammt frá frístundamiðstöðinni Árseli, sl. fimmtudagskvöld, 24. mars, um klukkan 20.30. Þar var ekið á gangandi vegfaranda en ökumaðurinn fór strax af vettvangi án þess að skeyta um hinn slasaða. Talið er að þarna hafi sennilega verið á ferðinni Ford F-150 pallbíll, líklega svart- eða dökklitaður.
Þeir sem urðu vitni að slysinu, eða búa yfir vitneskju um bílinn og ökumanninn, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is en lögreglan hvetur jafnframt ökumanninn til að gefa sig fram.