11 Október 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á Reykjanesbraut í Kópavogi, sunnan Smáralindar, sl. fimmtudag, 7. október. Á milli kl. 14 og 14.30 var rauðri bifreið, trúlega af gerðinni Nissan Sunny, ekið í veg fyrir svart bifhjól af gerðinni Kawasaki NNJA ZX – 10R á fyrrnefndum stað en ökutækin voru á norðurleið. Nissan Sunny bifreiðin, sem er að öllum líkindum komin vel til ára sinna (árgerð 95 eða eldri) var ekið fyrirvaralaust af vinstri akrein yfir á þá hægri með þeim afleiðingum að ökumaður bifhjólsins neyddist til að stýra hjólinu inn á vegöxl til að forðast árekstur. Það tókst en í framhaldinu missti bifhjólmaðurinn hinsvegar jafnvægið, á móts við aðrein að veitingastaðnum KFC, og hjólið féll í götuna. Maðurinn dróst með því einhvern spöl en hann var bæði bólginn og marinn eftir byltuna og er óvinnufær þessa dagana. Þeir sem urðu vitni að slysinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Sérstaklega er þess óskað að ökumaður grænnar Nissan Almera bifreiðar gefi sig fram en sá gaf sig á tal við bifhjólamanninn á vettvangi, strax eftir slysið.