27 Mars 2003 12:00

Dómsmálaráðuneytið sendi eftirfarandi fréttatilkynningu frá sér í dag:

„Í dag undirritaði Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra saminng við Skýrr hf. um smíði og hönnun nýs upplýsingakerfis fyrir lögregluna.  Kerfinu verður ætlað að koma í stað fimm eldri lögreglukerfa sem lögreglan hefur nú til umráða.  Hlutverk kerfisins verður að halda utan um dagbókarskráningar lögreglunnar, skýrslugerð, vinnslu mála, handtökur og önnur gögn þessu tengd.  Lögreglukerfið verður keyrt á lokuðu tölvuneti dómsmálaráðuneytisins sem nær til lögregluembætta um allt land.  Ríkiskaup héldu utan um forval og útboð kerfisins og óskuðu þrettán fyrirtæki eftir þátttöku í útboðinu.  Af þeim voru fjögur fyrirtæki valin hæf og boðin þátttaka í útboðinu.   Af þeim fyrirtækjum sem skiluðu tilboðum að útboði loknu var Skýrr hf. með hagstæðasta tilboðið og var ákveðið að ganga til samninga við Skýrr hf. á grundvelli tilboðs þeirra.

Fram kom í ávarpi Sólveigar Pétursdóttur, dómsmálaráðherra, að mikil framþróun hafi orðið í hugbúnaðargeiranum á síðustu árum auk þess sem ýmsar lagabreytingar hefðu gert það að verkum að nauðsynlegt hafi verið að huga að smíði nýs lögreglukerfis.  Hið nýja upplýsingakerfi muni án efa skipa Íslandi í fararbroddi á þessu sviði.  Nefndi ráðherra í þessu samhengi að unnt yrði að nota Tetra kerfið með markvissari hætti sem gagnaflutningsleið og unnt yrði að færa hluta tölvuvinnslunnar á vettvang.  Kerfið muni klárlega auka skilvirkni lögreglunnar og flýta allri tölvuvinnslu sem muni leiða til þess að lögreglan verði enn öflugri og sýnilegri.  Þá benti dómsmálaráðherra á að hið nýja upplýsingakerfi lögreglunnar yrði einnig stjórntæki og veitti lögreglunni möguleika á að nýta betur mannafla og tæki og ná þannig því markmiði sem ávallt ber að stefna að: það er að ná fram betri löggæslu og þar með betri þjónustu við almenning.“

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra

 og Hreinn Jakobsson, forstjóri Skýrr hf. undirrita samninginn