8 Desember 2021 10:39
  • Samfélagslöggur heimsækja 8. bekki og ræða um samþykki og ábyrgð í stafrænum samskiptum
  • Fjórðungur stúlkna á aldrinum 15-17 ára hefur verið þvingaður til myndsendinga
  • Nýtt app 112 auðveldar ungu fólki að tilkynna atvik til neyðarvarða

Ríkislögreglustjóri (RLS) hefur ráðist í fræðslu- og forvarnaherferð í samstarfi við Neyðarlínuna gegn stafrænum birtingarmyndum ofbeldis hjá unglingum. Herferðinni er sérstaklega beint að nemendum í 8. bekk og aðstandendum barna, en á þeim aldri eru börnin orðin nógu gömul til þess að nota samfélagsmiðla og mörg farin að nota síma án fjölskyldustillinga.

Um er að ræða hluta af aðgerðum gegn stafrænu ofbeldi á Íslandi sem stjórnvöld fólu RLS að sinna fyrr á þessu ári, en verkefnið hefur verið unnið í góðri samvinnu við lögregluembættin á landsvísu, Samband íslenskra sveitarfélaga og stýrihóp um forvarnaráætlun meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Verkefnið er í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn kynferðisbrotum. Þá hefur verið hrint úr vör árveknisátaki um nýtt app 112 auk þess sem upplýsingum um stafrænt öryggi og samþykki hefur verið bætt við vefgátt 112.

Myndir birtar af tæpum 18% stúlkna á aldrinum 15-17 ára gegn vilja þeirra
Stafrænum upplýsingapakka með forvarna- og fræðsluefni fyrir unglingastig er nú dreift til allra grunnskóla á landinu. Í efninu er áhersla lögð á að samþykki sé kjarninn í öllum kynferðislegum samskiptum, hvort sem þau eru stafræn eða ekki. Forvarnaefnið beinist sérstaklega að 8. bekkingum og munu samfélagslöggur heimsækja nemendur bekkjanna eins og unnt er á þeirra starfssvæði. Samfélagslöggur eru lögregluþjónar sem vinna markvisst að því að styrkja tengsl lögreglunnar við ungt fólk og færa lögregluna nær samfélaginu. Boðið verður upp á foreldrafundi með samfélagslöggunum á netinu til að fylgja fræðslunni eftir eins og kostur er.

Ástæða þess að valið var að beina forvarnaefninu gagngert að þessum aldurshópi er m.a. sú að rannsóknir benda til þess að þegar komið er í 9. bekk verði veruleg aukning í klámneyslu drengja og þrýstingur aukist á stelpur að deila kynferðislegu myndefni. Nýleg könnun Fjölmiðlanefndar leiddi í ljós að u.þ.b. ein af hverjum fjórum stúlkum á aldrinum 15-17 ára hefur verið þvinguð til myndsendinga og tæp 18% hafa lent í myndbirtingu gegn vilja sínum.

Skráðum kynferðisbrotum gegn börnum fjölgar
Skráðum kynferðisbrotum gegn börnum og tilkynningum vegna barnaníðsefnis fjölgaði árið 2020 samkvæmt nýlegri samantekt Ríkislögreglustjóra. Árið 2020 voru skráð 134 kynferðisbrot gegn börnum en meðalfjöldi mála síðustu þrjú árin á undan var 98 mál á ári. Þá voru skráð 32 brot sem vörðuðu barnaníð (myndir, myndskeið og annað efni), sem er aukning frá árunum þremur á undan þegar meðaltalið var 24 brot á ári. Það sem af er þessu ári hafa 36 brot er varða barnaníð verið skráð hjá lögreglunni.

Nýtt 112 app auðveldar ungu fólki að tilkynna atvik
Á sama tíma og fræðslu- og forvarnaherferðin fer af stað verður nýtt app 112 kynnt. Tilgangurinn með því er að auðvelda fólki, sem gæti átt erfitt með að lýsa aðstæðum í síma, að miðla upplýsingum til neyðarvarða. Umtalsverðar upplýsingar gegn ofbeldi eru nú þegar aðgengilegar fyrir börn og ungmenni á vefgátt 112 og hefur nú verið bætt við auknum upplýsingum um stafrænt öryggi og samþykki. Nú er því hægt að tilkynna atvik með því að hringja í 112, tengjast netspjalli 112 eða leita upplýsinga um úrræði á vefgátt 112.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri:

„Ofbeldi á ekki að líðast en allra síst gagnvart börnunum okkar. Í heimsfaraldrinum sáum við vel að tæknin hjálpaði okkur með margvíslegum hætti, en að sama skapi urðu til nýjar stafrænar birtingarmyndir ofbeldis. Með markvissri fræðslu, afbrotavörnum og vitundarvakningu getum við vonandi tryggt að þegar afbrot á sér stað fái börnin okkar viðeigandi aðstoð í góðri samvinnu lögreglunnar á landsvísu, Neyðarlínunnar og allra þeirra sem huga að farsæld barna dag hvern.“

María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá skrifstofu Ríkislögreglustjóra:

„Við notkun tækninnar þurfa að fylgjast að ábyrgð og öryggi. Þess vegna er mikilvægt að ná til unglinga sem eru nógu gömul til að nota samfélagsmiðla, en eru ekki farin að finna fyrir óheftum aðgangi að klámi og þrýstingi til þess að eiga í kynferðislegum samskiptum stafrænt. Við þurfum að tryggja að unglingar sem lifa í sífellt stafrænni veruleika taki með sér á sinni vegferð mikilvægi samþykkis í samskiptum; hvort sem það eru stafræn eða kynferðisleg samskipti. Það er meginmarkið fræðslunnar sem við vonum að hafi jákvæð áhrif á stafræna notkun unglinga til lengri tíma.“

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar:

„Fræðsla og þekking eru lykill að ofbeldislausu samfélagi.  Við þurfum að fræða börnin okkar um eðlileg og óeðlileg samskipti, og forða þeim þannig frá því að verða ýmist gerendur, þolendur eða bæði. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft segir máltækið og það dugar ekki lengur að helsta fræðslan um samskipti kynjanna eigi sér stað í búningsherbergjunum.“

Alfa Dröfn Jóhannsdóttir, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga:

„Öll börn eiga rétt á því að upplifa öryggi, rétt eins og 19. grein barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir, og ber okkur að gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn öllu ofbeldi, þar með talið stafrænu ofbeldi. Markmiðið okkar hlýtur alltaf að vera að breyta umhverfinu, gildunum og viðmiðunum sem hafa með tímanum holað steininn og stillt sýn samfélagsins þannig að við berjumst sífellt við afleiðingar ofbeldis í stað þess að koma í veg fyrir það. Með samstilltu átaki breytum við því hvernig við nálgumst þetta málefni, í sameiningu og með upplýstu átaki breytum við umhverfi barnanna okkar til hins betra.“

 

Nánari upplýsingar veitir María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra, í s: 698-8485, mrb@logreglan.is