29 September 2012 12:00

Þrír unglingar, ein stúlka og tveir piltar, voru flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í fyrradag, eftir að þau höfðu drukkið landa og orðið öfurölvi og veik. Lögreglan á Suðurnesjum hóf þegar rannsókn og handtók rúmlega tvítugan karlmann sem viðurkenndi sölu landa, en vildi þó ekki kannast við að hafa selt unglingunum brugg. Hann var með tugi þúsunda króna, þegar hann var handtekinn og lagði lögregla hald á þá fjármuni vegna gruns um að þeir séu ágóði af landasölu.Þá var farið í húsleit hjá öðrum karlmanni í umdæminu. Þar fundust um 50 lítrar af gambra, sex 25 kílóa sykurpokar, svo og tæki til eymingar og kolasía. Maðurinn, sem er nær þrítugu, viðurkenndi bruggunina. Unglingarnir þrír eru farnir af HS. Málið er í rannsókn.

Smáhundar bitu bréfbera

Bréfberi hjá Póstinum tilkynnti lögreglunni á Suðurnesjum í vikunni að tveir hundar hefðu veist að sér og annar þeirra bitið sig. Bréfberinn var að bera út póst í kjallaraíbúð í umdæminu og stóð hurðin opin. Fyrr en varði komu tveir hundar af chihuahuakyni út og beit annar hundurinn hann í fótinn svo áverkar hlutust af. Bréfberinn fór á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann var sprautaður vegna bitsins og settur á lyfjakúr. Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja er tilkynnt um mál af þessu tagi.