23 Febrúar 2004 12:00

Árið 2000 óskaði Lögregluskóli ríkisins eftir því að stytta tímabundið starfsþjálfun lögreglunema með það fyrir augum að flýta fjölgun faglærðra lögreglumanna. Þetta var gert til að tryggja að lögreglustarfinu sinntu ekki aðrir en menntaðir lögreglumenn.

Ljóst er að þetta markmið hefur náðst og því hafa starfsmenn skólans unnið um skeið að hugmyndum að breyttu og bættu kerfi lögreglumenntunar. Drög að hugmyndunum hafa verið kynnt dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóra og framkvæmdastjórn Landssambands lögreglumanna.

Hugmyndir Lögregluskólans hafa mælst vel fyrir og því verður nú unnið að framgangi þeirra og nánari útfærslu. Sú vinna mun verða í náinni samvinnu starfsmanna skólans við alla hlutaðeigandi, einkum embætti Ríkislögreglustjórans og Landssamband lögreglumanna.

Vinnuhópar hafa verið myndaðir um einstaka þætti námsins og aðra þá þætti sem breytingin snertir. Leitað verður til einstakra lögreglustjóra, lögreglumanna og fólks utan lögreglunnar með sérþekkingu á tilteknum sviðum til að útfæra hugmyndir Lögregluskólans nánar. Alls munu um 40 manns koma að verkefninu á einn eða annan hátt.

Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki í maí n.k. og þá verði dómsmálaráðherra kynntar nákvæmar tillögur um bætt og breytt grunnnám Lögregluskóla ríkisins.

Í hugmyndum Lögregluskólans er m.a. að finna breytingar varðandi inntöku nýnema og þeim sem hafa hug á að sækja um skólavist í Lögregluskólanum skal þess vegna á það bent að á þessari stundu er ekki hægt að staðfesta hvenær nýir nemendur verða næst teknir inn í skólann.