24 Ágúst 2006 12:00

Snemma sunnudagsmorguninn 13. ágúst s.l. var lögregla, læknir og sjúkralið kvatt að svefnskála í vinnubúðum Impregilo við Kárahnjúka. Þar hafði íbúi í einu herbergjanna komið að félaga sínum í sárum og hafði sá misst mikið blóð. Var hann með áverka á hálsi og höfði. Viðkomandi var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á flugvöllinn á Egilsstöðum þaðan sem hann var fluttur með sjúkraflugvél á Landsspítala háskólasjúkrahús í Reykjavík.

Hinn særði sagði að tveir menn hefðu ráðist á hann um nóttina til að ræna hann.

Hann gat enga lýsingu gefið á mönnunum en kvað þá hafa hulið andlit sín og borið sólgleraugu. Þeir hefðu talað kínversku, þ.e. mandarín sem er grunntungumálið í Kína.

Embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði fékk sér til aðstoðar 2 menn frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík til að rannsaka vettvang.

Rannsókn embættisins og tæknideildar LR hefur leitt í ljós að telja verður líklegt að maðurinn hafi veitt sér áverkana sjálfur með naglbít en hann hefur neitað því við yfirheyrslur. Niðurstaða tæknideildar LR hefur verið studd með áliti réttarmeinafræðings.

Málsgögn verða send ríkissaksóknara til ákvörðunar að rannsókn lokinni.