9 Október 2012 12:00

Karlmaður á þrítugsaldri reyndist vera algjörlega út úr heiminum af völdum sveppaáts þegar lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af honum í gær. Maðurinn var staddur við hafnarvogina í Keflavík þegar lögregla varð hans vör. Hann reyndist vera í alvarlegu vímuástandi og  óviðræðuhæfur. Lögreglumönnum tókst þó að greina af því sem hann reyndi að segja að hann væri búinn að borða mikið af sveppum. Maðurinn var færður á lögreglustöð og látinn sofa úr sér. Síðan var tekin af honum skýrsla, þar sem hann viðurkenndi sveppaátið, og var frjáls ferða sinna að því búnu.

Brutust inn og stálu tölvu

Brotist var inn í fyrirtæki í Keflavík um helgina og þaðan stolið tölvu. Þjófarnir komust inn um glugga með því að rífa upp stormjárn. Eftir að hafa látið greipar sópa reyndu þeir að brjóta rúðu í millihurð til að komast út. Þar sem öryggisgler er í hurðinni tókst þeim ekki að mölva það og þurftu þeir því að skríða út um gluggann, sem þeir höfðu komist inn um. Upp komst um innbrotið eftir að öryggiskerfi í byggingunni fór í gang.

Fimmtán ára í skilríkjasvindli

Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um að ungur piltur væri að reyna að komast inn á skemmtistað í umdæminu á ökuskírteini annars manns. Pilturinn sem um ræðir reyndist vera fimmtán ára. Hann kvaðst hafa fengið ökuskírteinið lánað hjá manni sem hann þekkti. Pilturinn, sem var ölvaður,  var færður á lögreglustöð og látinn bíða þar uns hann var sóttur. Lögregla tjáði honum að ef hann reyndi aftur að nota skilríki annars manns til að villa á sér heimildir yrði hann kærður.

Sviptur í vímu með stolin númer

Karlmaður var handtekinn í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina, grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Hann ók einnig sviptur ökuréttindum. Enn fleira virtist hann hafa á samviskunni, því þegar lögregla fór að athuga skráningu bifreiðarinnar sem hann ók, hafði  skráningarmerkjunum á henni verið stolið af annarri bifreið.