5 Apríl 2019 10:54

Í dag lítur dagsins ljós áhættumat ríkislögreglustjóra 2019. Áhættumatið felur í sér ítarlega og heildstæða greiningu á fyrirliggjandi hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á þeim mörkuðum og starfsemi sem helst er talið að geti verið útsett fyrir slíkri áhættu á Íslandi. Áhættumatið er unnið og birt á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, en samkvæmt lögunum ber embætti ríkislögreglustjóra að vinna áhættumat sem inniheldur greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi og leiðir til að draga úr metinni áhættu. Samkvæmt lögunum skal áhættumatið uppfært á tveggja ára fresti og oftar gefist tilefni til.

Áhættumat ríkislögreglustjóra er forsenda þess að unnt sé að leggja mat á hvort fullnægjandi varnir séu til staðar gagnvart peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svo og til hvaða aðgerða þurfi að grípa reynist svo ekki vera. Lagt er upp með að áhættumatið muni nýtast fjölmörgum sem hagsmuna eiga að gæta af málaflokknum, t.d. stjórnvöldum og eftirlitsaðilum, sem og þeim aðilum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt lögum nr. 140/2018, en gert er ráð fyrir því að þeir hafi áhættumat ríkislögreglustjóra til hliðsjónar er þeir framkvæma eigið áhættumat á rekstri sínum og viðskiptum.

Áhættumatið var unnið á faglegum og hlutlægum grundvelli og samkvæmt þeirri aðferðarfræði sem byggt er á í leiðbeiningum alþjóðlega aðgerðarhópsins Financial Action Task Force, sem kalla má leiðandi á þessu sviði. Vinnan við áhættumatið fór fram í víðtæku og nánu samráði við alla þá sem aðkomu eiga að málflokknum og byggir á umfangsmikilli gagna- og upplýsingaöflun sem ráðist var í af því tilefni. Markar áhættumatið tímamót í baráttunni gegn þeirri meinsemd sem peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sannanlega eru.

Áhættumatið má nálgast hér.