26 Mars 2003 12:00
Nokkrar fyrirspurnir hafa borist til lögreglunnar á Ísafirði um það hvort miða skuli við fæðingarár eða fæðingardag í útivistarreglum. Þetta eru aðallega fyrirspurnir frá unglingum sem eru að skoða réttarstöðu sína. Fyrirspurnir og umræður unglinga við lögregluna í þessum dúr bera vott um þroskaða hugsun og er alltaf gaman að taka þátt í því. Í þessu sambandi skal tekið fram, að ný barnaverndarlög tóku gildi þann 1. júní árið 2002. Í nýju barnaverndarlögunum var numið úr gildi ákvæði sem kvað á um að útivistarreglur skyldu miðast við fæðingardag. Þess í stað tók gildi ákvæði, þar sem kveðið var á um að miðað skyldi við fæðingarár. Meðfylgjandi er 92. grein barnaverndarlaga, nr.80/2002.
92. gr. útivistartími barna
Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20:00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.
Guli og rauði segullinn á ísskápinn, sem borinn var í hús á norðanverðum Vestfjörðum fyrir fáum árum síðan, er í fullu gildi eftir sem áður.
Lögreglan vill að lokum brýna fyrir foreldrum að hafa útivistarreglurnar í heiðri.
Lögreglan á Ísafirði.