7 Nóvember 2003 12:00
Vá Vesthópurinn hefur nú keypt nokkurt upplag af ísskápsseglum sem hafa að geyma útivistarreglurnar, foreldrum til glöggvunar. Með þessu vill þessi ágæti forvarnahópur, sem starfar á norðanverðum Vestfjörðum, minna foreldra á mikilvægi þess að börnum sé kennt að fara að landslögum. Foreldrar bera jú ábyrgð á því að leiðbeina börnum sínum hvað þetta varðar.
Á nýja ísskápsseglinum má sjá nýtt merki Vá Vesthópsins, sem ekki hefur birst áður opinberlega. En það er hannað af Högna Sigurþórssyni grafískum hönnuði.
Ísskápssegullinn er til á lögreglustöðvunum á Ísafirði og í Bolungarvík, en þangað geta foreldrar sótt segul gefins, í boði Vá Vesthópsins. Rétt er að geta þess að guli og rauði segullinn með útivistarreglunum, sem Vá Vesthópurinn og nokkur fyrirtæki gáfu til um 700 heimila fyrir nokkrum árum er enn í fullu gildi.