16 September 2003 12:00

Lögreglan í Árnessýslu er nú að fara af stað með átak í málum er varða útivistartíma barna. Börn 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla- íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.

Brýnt er fyrir foreldrum að fylgja því eftir við börn sín að farið sé eftir reglum um útivistartíma. Lögreglan mun vísa börnum, sem eru úti eftir að leyfilegum útivistartíma lýkur, heim. Afskiptin verða skráð sérstaklega og viðkomandi barnaverndaryfirvöldum send tilkynning um þau.

Samhliða þessu verkefni mun lögreglan fylgjast sérstaklega með notkun barna á reiðhjólum á reiðhjólahjálmum. Foreldrar barna sem lögreglan hefur afskipti af og ekki eru með hjálm við hjólreiðar munu fá bréf með tilkynningu um afskiptin auk endurrits á þeim reglum er gilda um hjálmanotkun. Óþarfi er að minna á að búa þarf reiðhjól viðeigand ljósum og glitaugum nú þegar daginn er tekið að stytta. Jafnframt þessu eru gangandi vegfarendur hvattir til að huga að endurskinsmerkjum, þau gera jú lítið gagn í skúffunum heima.

Lögreglan í Árnessýslu