24 Júní 2007 12:00

Föstudaginn 22. júní útskrifuðust 28 stjórnendur og verðandi stjórnendur í lögreglunni úr stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins sem haldið er í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands. Nemarnir hafa stundað nám í almennum stjórnunarfræðum í framhaldsdeild skólans með sérstaka áherslu á atriði sem nýtast vel við stjórnun í lögreglu. Kennarar koma frá Háskóla Íslands en einnig frá lögreglunni og samstarfsaðilum. Þetta er fjórði hópurinn sem útskrifast og hafa þá alls 120 lokið þessu námi frá því fyrst var boðið upp á það árið 2003.

Námið er á háskólastigi og jafngildir 23 einingum. Hæstu meðaleinkunn að þessu sinni hlaut Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, 8.89.

Hér að neðan má sjá mynd sem tekin var af hópnum við útskriftina, sem fór fram við hátíðlega athöfn í Háskólabíói að viðstöddu fjölmenni.