27 Júní 2006 12:00
Föstudaginn 23. júní s.l. útskrifuðust 27 stjórnendur og verðandi stjórnendur í lögreglunni úr stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins sem haldið er í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands. Nemarnir hafa stundað nám í almennum stjórnunarfræðum í framhaldsdeild skólans með sérstaka áherslu á atriði sem nýtast vel við stjórnun í lögreglu. Kennarar koma frá Háskóla Íslands en einnig frá lögreglunni og samstarfsaðilum. Þetta er þriðji hópurinn sem útskrifast og hafa þá alls 92 lokið þessu námi frá því fyrst var boðið uppá það árið 2003. Mikil eftirspurn hefur verið eftir þessu námi og hóf nýr hópur nemenda námið nú í vetur og mun hann útskrifast sumarið 2007.
Námið er á háskólastigi og jafngildir 23 einingum. Hæstu meðaleinkunn að þessu sinni hlaut Sólberg S. Bjarnason, rannsóknarlögreglumaður hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík, 9.20. Tveir nemendur aðrir hlutu yfir 9 í meðaleinkunn.
Við útskriftina, sem fór fram í Háskólabíói að viðstöddu fjölmenni, útskrifuðust fjórir aðrir hópar nemenda Endurmenntunar í lengra námi. Hátíðarræðu flutti Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, flutti hátíðarræðu. Á myndinni eru einnig Erna Guðrún Agnarsdóttir, starfandi endurmenntunarstjóri, Magnús Þór Jónsson, prófessor og formaður stjórnar Endurmenntunar og Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskólans.
Útskriftarhópur úr stjórnunarnámi 2006