21 Maí 2003 12:00

Dagana 4. – 12. maí s.l. fóru þeir nemendur Lögregluskóla ríkisins sem útskrifuðust í desember 2002 í “útskriftarferð” til Danmerkur en ferðir sem þessar hafa verið fastur liður í grunnnámi skólans síðan 1990. Að þessu sinni voru 28 þátttakendur í ferðinni, þeir hafa allir starfað sem lögreglumenn vítt og breytt um landið frá því að grunnnámi þeirra lauk.

Ferðin var farin í nafni og undir stjórn Lögregluskóla ríkisins og þátttakendur í henni lutu agavaldi og stjórn lögreglufulltrúanna Árna Sigmundssonar og Ólafs Egilssonar sem fóru sem fararstjórar hópsins.

Danski lögregluskólinn skipulagði dagskrá ferðarinnar og móttökurnar í Danmörku voru að vanda ákaflega góðar. Dagskráin var í senn fræðandi og skemmtileg, Íslendingarnir fengu m.a. að kynnast uppbyggingu og starfsemi danska lögregluskólans, þeir skoðuðu danska lögregluhunda og lögregluhesta, tóku þátt í verklegum æfingum og líkamsþjálfun með dönskum lögreglunemum og fengu fræðslu um baráttu dönsku lögreglunnar við skipulagðar glæpaklíkur. Íslendingunum var kynnt samvinna Dana og Svía á landamærunum á Eyrarsundi og formlegri dagskrá ferðarinnar lauk með því að mannvirkin sem tengja Danmörk og Svíþjóð voru skoðuð.

Það er samdóma álit allra þeirra sem að ferðinni komu að hún hafi tekist einstaklega vel og verið öllum þátttakendum í henni og jafnframt íslensku lögreglunni til mikils sóma.