22 Janúar 2008 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við fjársvikum með erlendum tékkum.  Þau eru framkvæmd með þeim hætti að viðskiptum er komið á í gegnum íslenska sölusíðu.  Kaupandinn sendir síðan sem greiðslu falsaðan erlendan tékka í pósti.  Þar sem tékkafjárhæðin er mun hærri en söluverð hlutarins er óskað eftir því að mismunurinn verði sendur til baka seljandanum í formi peningasendingar með milligöngu Western Union til þess lands þar sem kaupandinn kveðst vera staddur. Seljandinn, grunlaus um að tékkinn sé falsaður, skiptir honum í banka.  Þegar tékkanum er síðan hafnað af hinum erlenda reikningsbanka er hins vegar búið að innleysa peningasendinguna.  Seljandinn situr þá eftir með sárt ennið og þarf að öllum líkindum að endurgreiða íslenska innlausnarbankanum andvirði tékkans.  Við rakningar á ip-tölum sést að þeir sem standa að baki þessu eru staddir í Nígeríu þótt peningasendingarnar fari annað.

 Varðandi fjársvik á netinu vísar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu m.a. á þessa síðu hér.