26 Desember 2003 12:00

Varúð í meðferð skotelda / flugelda.

Lögreglan vekur athygli fólks á að enginn má versla með skotelda í smásölu nema hann hafi til þess leyfi frá hlutaðeigandi lögreglustjóra. Skotelda má ekki selja til unglinga yngri en 16 ára. Öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára er óheimil nema annars sé sérstaklega getið.

Fullorðið fólk þarf að hafa vit fyrir börnunum og gæta þess að þeim stafi ekki hætta af skoteldum og blysum. Börnin geta stundum orðið áköf, vilja gleyma sér við spennandi aðstæður og ganga þá stundum lengra en æskilegt getur talist. Munið að slysin gera ekki boð á undan sér. Lesið leiðbeiningarnar sem fylgja skoteldum og blysum og farið eftir þeim. Ekki á að vera með skotelda við brennur. Þar sem fólk safnast saman getur notkun þeirra verið varasöm. Þar þarf að sýna ýtrustu varkárni engu síður en annars staðar.

Reynslan sýnir að alltaf er eitthvað um slys um áramót af völdum skotelda og blysa. Þeim má fækka verulega ef fólk umgengst þá hluti eins og ætlast er til. Með því að fara varlega er hægt að draga verulega úr líkum á þessum slysum.

Meðferð skotelda er einungis heimil á tímabilinu 28. 12. – 06. 01. að báðum dögum meðtöldum

Meðferð áfengis.

Lögreglan hvetur fólk til að gæta hófs í áfengisneyslu og foreldra að gleyma ekki börnum sínum svo sem flestir megi eiga ánægjuleg áramót. Hverjum og einum má vera ljóst að meðferð áfengis og notkun skotelda og blysa fer alls ekki saman.

Lögreglan óskar öllum gleði, farsældar og friðar á nýju ári.

   

F. h. l.