23 Mars 2012 12:00

 Vegfarandi kom á lögreglustöð lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni og afhenti kannabisefni í litlum plastpoka með smellulás. Hann kvaðst hafa fundið efnið við garðinn heima hjá sér.

Þá hafði lögreglan á Suðurnesjum afskipti af karlmanni um þrítugt, er reyndist vera með um eitt gramm af kannabisefni í fórum sínum, sem hann framvísaði strax og lögregla ræddi við hann.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005 þar sem hægt er að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál undir nafnleynd.

Sterar og vopn

Lögreglan á Suðurnesjum fór í þrjár húsleitir í umdæminu í vikunni, að fengnum dómsúrskurði. Í annarri leitinni fundust meintir sterar, útdraganleg kylfa og piparúði.

Í hinni húsleitinni fann lögregla einnig meinta stera og fíkniefni, nokkra hnífa og fjórar loftbyssur. Lögregla fór einnig í aðstöðu sem viðkomandi einstaklingur hefur til eigin nota og haldlagði þar tæki sem talin eru vera þýfi.

Með fíkniefni innan klæða

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af fimm ökumönnum í vikunni, sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir karlmenn, báðir á fimmtugsaldri voru færðir á lögreglustöð og annar þeirra sviptur  ökuréttindum.  Karl og kona um tvítugt voru einnig handtekin af sömu sökum. Loks hafði lögregla afskipti af tæplega þrítugum karlmanni sem var grunaður um fíkniefnaakstur. Við leit á honum fannst tóbaksblandað kannabis sem hann hafði falið í nærbuxum sínum.

Þá stöðvaði lögregla  konu um þrítugt sem grunuð er um ölvunarakstur. Hún var handtekin og flutt á lögreglustöð.

Fimm beltislausir og einn í síma

Lögreglan á Suðurnesjum hafði í vikunni afskipti af fimm ökumönnum sem voru ekki með öryggisbelti spennt við akstur. Brot af þessu tagi kostar viðkomandi 10.000 krónur. Þá var einn ökumaður stöðvaður þar sem hann talaði í síma við aksturinn án þess að nota handfrjálsan búnað. Brot af því tagi kostar viðkomandi 5.000 krónur.

Lögregla hvetur ökumenn til að fara að reglum um notkun bílbelta og farsíma, svo og við akstur almennt.